GRunnbúðir Everest
Brúðkaupsferð Árna og Ingu í sögu og myndum
16. desember 2022 | Seattle - Doha
Ferðin hófst á rútuferð frá Vancouver til Seattle eldsnemma um morguninn. Japanski rútubílstjórinn rabbaði heillengi í hátalarakerfinu við farþegana um mikilvægi þess að muna hvernig rútan liti út eftir landamæraeftirlitið svo við myndum nú skila okkur í rétta rútu því hann myndi ekki muna hvernig við litum út.
Í Seattle tók við smá bið og svo flugum við með Qatar Airways til Doha, höfuðborgar Katar. Í flugvélinni spiluðu þau HM lagið aftur og aftur og aftur svo það sönglaði í hausnum á okkur restina af ferðinni. Flugfélagið sá vel um okkur með endalausum máltíðum. Maður var meira að segja vakinn til að borða morgunmat um miðja nótt, á okkar tímabelti, rétt fyrir lendinguna í Doha.
17. desember 2022 | Doha - Kathmandu
Við lentum í Doha og við tók löng átta tíma bið eftir næsta flugi. Við vorum þó fegin því að biðin var ekki lengri því við höfðum náð að koma okkur í fyrra flugið þann daginn til Kathmandu. Inga las bókina Eitt satt orð eftir Snæbjörn Arngrímsson og Árni svaf í lestrarherberginu eftir að hafa horft á fimm bíómyndir í fluginu til Doha.
18. desember 2022 | Kathmandu
Komin til Kathmandu!
Það voru bara karlar í vélinni sem stóðu óþolinmóðir í röð með hökuna í hálsakoti hvors annars á leið inn og úr vélinni. Flugvöllurinn var lítill og þau þurftu ekki auka passamyndirnar okkar sem við höfðum tekið í flýti í Vancouver, kvöldið fyrir flug. Landamæraverðirnir vildu bandaríkjadollara fyrir vegabréfsáritunina en sættu sig á endanum við nepölsku rúplurnar okkar.
Leiðsögumaðurinn okkar, Chhiring Sherpa, frá ferðafélaginu Namaste Nomad sótti okkur á völlinn. Umferðin í Kathmandu er eitthvað annað. Þar ríkir regla í óreglunni sem við túristarnir skiljum ekki. Það var stressandi að vera í bílnum innan um allt fólkið, götuhundana, vespurnar og fleiri bíla sem óku hver utan í hvorn annan. Troðningurinn kom okkur að lokum á áfangastað, Hotel Moonlight. Við fengum okkur svo kaffi og fórum yfir planið með Chhiring sem sagði okkur að enginn væri ónæmur fyrir háfjallaveiki og því best að fara hægt upp og fylgjast grannt með heilsunni. Hann hafði upplifað háfjallaveiki sjálfur.
Útsýnið frá Hotel Moonlight
19. desember 2022 | Kathmandu - Lukla | 2880M
Við vöknuðum snemma og keyrðum á lítinn innanlandsflugvöll með Chhiring. Umferðin var þægilegri svona snemma morguns en rykið og mengunin frá gærdeginum lá enn í loftinu. Við vorum spennt að komast í ferskt fjallaloftið.
Á flugvellinum biðum við lengi í einhversskonar klessuröð. Enginn virtist vera að flýta sér. Við fórum í gegnum frumstæða öryggisleit og settumst í biðsalinn og biðum eftir fluginu til Lukla. Það var skýjað í Lukla svo fluginu okkar seinkaði um nokkra tíma sem er alls ekki óvanalegt. Hér sáum við í fyrsta skipti klósettholu og Inga ákvað að halda í sér.
Við settumst svo loksins ásamt tíu öðrum ferðalöngum upp í Twin Otter flugvél. Það virkaði ekki mjög traustvekjandi þegar við sáum flugmanninn koma og rétt kíkja á nefið á vélinni og hoppa svo inn. Fólkið í vélinni var stressað, sérstaklega Inga, Chhiring og Serbinn við hliðina á Ingu sem horfði margoft til hennar náfölur. Inga sat og endurtók bænir til Búdda og Guðs: ‘‘Vaktu yfir okkur, verndaðu okkur’’. Hún reyndi að kreista hendina hans Árna en hann var of upptekinn af því að taka myndir af útsýninu út um gluggann. Allt í einu birstist svo flugbrautin upp úr þurru og við vorum lent.
Loksins Lukla!
Við hittum Sudip, burðarmanninn okkar á flugvellinum og settumst út á tehúsi og nutum útsýnisins. Veðrið var gott.
Dal Bhat
Við röltum um Lukla þar sem mikið var um að vera og götuhundarnir sleiktu sólina. Í hádeginu settumst við inn á tehús og fengum okkur í fyrsta skipti af mörgum, Dal Bhat, sem er hefðbundinn nepalskur réttur og algjör undirstöðufæða Nepala í fjöllunum. Dal Bhat inniheldur öll næringarefnin sem þú þarft til að ganga lengi í fjöllunum; Hrísgrjón, linsubaunasúpu, sem er hellt yfir grjónin, papadum sem er einhversskonar stökkt kryddað flatbrauð, kartöflur og grænmeti.
Eftir hádegismat lá leiðin niður til Phakding og við mættum mörgum ferðalöngum, burðarhestum og ógnarsterkum burðarmönnum. Við komum til Phakding seinni tíma dags eftir 8km göngu. Það var orðið kalt. Við settumst inn í matsal þar sem Inga sat skjálfandi úr kulda. Það hefur líklega heyrst í beinunum hennar titra því stuttu eftir að við settumst niður komu gestgjafarnir með rafmagnshitara og beindu honum í átt að Ingu.
Við vorum ánægð eftir fyrsta göngudaginn, svolítið þreytt eftir flugið og enn að venjast tímamismuninum. Við sofnuðum sæl hlið við hlið í tvíbreiðu rúmi með einkaklósett sem við seinna lærðum að væri algjör lúxus.
20. desember 2022 | Phakding - namche bazar | 3447M
Við vöknuðum snemma, pökkuðum öllu niður og héldum af stað til Namche Bazar sem er höfuðstaður Sherpanna. Þessi leið átti eftir að verða erfið en við gengum hægt, tókum margar pásur, nutum fjallaloftsins, útsýnisins og spjallsins við aðra ferðalanga. Á leiðinni fórum við yfir ánna Dudh Kosi sem Chhiring kallaði mjólkuránna. Á leiðinni inn Khumbudalinn mættum við götuhundi sem rölti alsæll fram hjá okkur með haus af einhverju dýri í kjaftinum.
Við gengum yfir fyrstu hengibrúnna af mörgum ásamt því að sjá börn á leið í skóla. Tvær ungar stelpur gengu með mömmu sinni og bróður langa leið. Síðan skildust leiðir þeirra að en hundarnir þeirra héldu áfram með stelpunum í átt að skólanum. Einn fylgdi þeim alla leið á meðan annar sat og beið við hengibrú og sá til þess að þær skiluðu sér yfir hana.
Rétt fyrir Namche Bazar sáum við Everest í fyrsta skipti í fjarska. Þegar við komum loksins í bæinn eftir 12.8km göngu, upp 1000m áttum við enn eftir að labba upp brattar hlíðar Namche á tehúsið okkar, Snow Land. Þar var stór hópur frá Englandi sem hóstaði eins og þau ættu lífið að leysa allt kvöldið og við héldum okkur í góðri fjarlægð. Chhiring sagði okkur seinna að þetta væri Khumbu hóstinn sem er algengur hjá göngufólki í Khumbudalnum þar sem loftið er kalt, þurrt og rykið frá þungum sporum burðardýranna þyrlast upp og situr í loftinu. Það var ískalt í Namche en okkur var hlýtt í -30 og -40 gráðu svefnpokunum okkar.
21. desember 2022 | namche bazar | 3447M
Í dag var hæðaraðlögunardagur og dagsganga skipulögð til að aðlagast hæðinni. Við gengum 4.7km upp 355m upp að útsýnispunkti, löturhægt enda aðeins farin að finna fyrir þunna loftinu. Útsýnisstaðurinn var fallegur og hægt var að sjá Everest. Árni sá fjallaástina sína, Ama Dablam í fyrsta skipti, sem prýðir titilmynd ferðasögunnar.
Þar var líka stytta af Tenzing Norgay, fyrsta Sherpanum til að klífa Everest með Edmund Hillary árið 1953. Við gengum upp fjallshlíðar Namche og sáum börn niðri í bænum byrja skóladaginn sinn. Þau byrjuðu á samhæfðum leikfimisæfingum við trommuslátt. Síðan var talið niður í þjóðsönginn: 1 2 3 Go! Yndislegar raddir þeirra hljómuðu um allt fjallið eins og heyrist í mynbandinu hér að neðan. Þjóðsöngurinn fjallar um móðurlandið sem er ríkt af afurðum nátturunnar, hetjum, fjöllum, fjölbreyttum þjóðernum, tungumálum, trúarbrögðum og menningu. Í laginu segir “Við erum hundruðir blóma, ofinn saman í einn krans, Nepal”.
Við héldum göngunni áfram upp að Syangboche flugvelli og jakuxarnir höfðu tekið yfir þennan gamla flugvöll. Chhiring sagði okkur að jakuxinn er eina dýrið sem getur borið varning upp í þorp hæstu hlíða Khumbudalsins. Þeir þola þunna loftið betur en önnur dýr.
Við röltum um Namche og skoðuðum búðir og fórum á listasafn þar sem við sáum málverk af fjöllunum í kringum okkur. Um kvöldið fengum við okkur hrikalega góðan nepalskan rétt, veg momo sem eru nepalskir grænmetis-”dumplings” með sterkri tómatsósu.
Það var kalt um kvöldið og rafmagnshitarinn í matsalnum var bilaður. Við héldum okkur hita með því að spila. Inga kenndi Chhiring að spila Kleppara. Árni var ósáttur að tapa alltaf fyrir Ingu þannig Chhiring kenndi okkur nepalskt spil, Dumball. Heppnin var með Árna í því spili og síðan skiptust Árni og Chhiring á því að heilla hvorn annan með spilagöldrum.
Chhiring færði okkur eftirrétt þetta kvöldið eins og önnur nema nú granatepli í formi hjarta. Við vonuðumst til að sofa vel en hundarnir í Namche höfðu gelt alla fyrri nóttina. Greyin gelta alla nóttina til að koma í sér hita því það er svo hræðilega kalt. Það var skrýtið að sofna í einbreiðum, hörðum rúmum í brúðkaupsferðinni okkar en við vorum þreytt og steinsofnuðum.
22. desember 2022 | namche bazar - Tengboche | 3863M
Við gengum í yndsilegu veðri frá Namche, meðfram fjallshlíð Khumjung fjallsins. Við gengum niður dalinn í hádegismat og fengum okkur Dal Bhat Power 24 Hour No Shower, eins og Sherparnir segja. Eftir hádegi tók við brött eilífðarbrekka. Eftir 11.2km göngu niður 416m og upp 843m vorum við komin í litla þorpið, Tengboche.
Seinna um daginn, eftir að við vorum búin að koma okkur fyrir, ómaði Tíbetskt horn og allt ilmaði af júníper. Þetta tvennt er merki þess að bænastund sé að hefjast í búddaklaustrinu í Tengboche. Það var bannað að taka myndir þar inni en það var rosalega fallegt, allir veggir skreyttir og stórt altari þar sem Búdda hafði verið fært allskonar munir, peningur og matur. Munkarnir byrjuðu bænastund og við sátum á dýnum við veggina. Þeir þuldu bænir, jöpluðu á kexi, drukku te, blésu í lúðra og lömdu á gong. Okkur var færður heilagur matur, popp.
Frá tehúsinu okkar vorum við með magnað útsýni yfir Everest, Lhotse, og Ama Dablam. Kvöldsólin kyssti fjöllin á leiðinni niður. Það var ískalt og ákveðin áskorun að koma sér út úr svefnpokanum og fram á klósett um miðja nótt til að pissa.
23. desember 2022 | Tengboche - dingboche | 4350M
Það var gott að byrja að ganga um morguninn þó það væri ískalt því útsýnið var magnað og leiðin lá í fyrstu niður á við.
Í hádeginu byrjaði Inga að finna fyrir háfjallaveiki, dúndrandi hausverkur svo hún borðaði hádegismatinn inni með sólgleraugu og derhúfu. Hún var bara með eitt einkenni og hausverkurinn aðallega í enninu svo Chhiring sagði að það væri í lagi að halda áfram. Hann var duglegur að spyrja hvernig við hefðum það og passaði vel upp á okkur.
Við komum að Dingboche eftir 11.6km göngu upp 668m. Það voru fáir á tehúsinu. Þegar Árni sá herbergið okkar með tvíbreiðu rúmi og einkaklósetti sagðist hann elska Chhiring. Hann hafði hringt á undan okkur frá Namche og sérbókað þetta fína herbergi fyrir okkur. Chhiring mældi súrefnismettunina okkar sem var góð. Hann færði okkur sykurkex eins og hvert annað síðdegiskaffið og við spiluðum Dumball í nokkra tíma með honum og Sudip.
Árni keypti netáskrift, Everest Link, sem á að nettengja tehúsin í mestöllum Khumbudalnum svo við gætum hringt í fjölskylduna á aðfangadag.
24. desember 2022 | aðfangadagur í dingboche | 4350M
Við vöknuðum á aðfangadag við hangikjötslykt! Við fórum upp í matsal og sáum að það var verið að kynda með því að brenna jakuxakúk í kamínunni… eða súkkulaðiköku eins og Chhiring kallaði það. Árni fékk ekki hangikjöt.
Við áttum að nýta daginn í hæðaraðlögun. Inga vaknaði hress en Árni með háfjallahausverk í hnakkanum. Chhiring ákvað að við færum bara í stutta göngu í dag til að aðlagast betur hæðinni og sjá hvort höfuðverkurinn færi. Maður andar að sér minna súrefni á næturnar inni á tehúsunum og því ekki óalgengt að vakna með hausverk í háfjöllunum sem fer svo þegar farið er út í ferska loftið og byrjað að ganga hæææææægt.
Hausverkurinn lagaðist hjá Árna og eftir gönguna spiluðum við og biðum eftir að Ísland myndi vakna. Við náðum að heyra í Biggu og Freyju yngri til að óska þeim gleðilegra jóla áður en þykk, hvít þoka streymdi yfir þorpið. Eftir það misstum við samband við umheiminn og náðum ekki að heyra í fleirum þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Við héldum því áfram að spila, spjalla og hlýja okkur við jakuxakúksbrennuna.
Kvöldsólin í Dingboche
Í jólamatinn fengum við veg momo í forrétt og Dal Bhat í aðalrétt. Í eftirrétt var heitt te og mandarínur. Við sendum jólakveðju í gervihnattasímanum á foreldra okkar þegar í ljós kom að ekkert netsamband yrði að hafa svo þau myndu ekki hafa áhyggjur. Skrýtin jól.
25. desember 2022 | dingboche - lobuche | 4931M
Við vorum hætt að drekka kaffi á morgnanna því kaffið þurrkar mann upp og eykur líkurnar á háfjallaveiki. Við hlýjuðum okkur um hjartarætur um morguninn með því að lesa jólakort frá fólkinu okkar heima. Amma Gúmmía hafði sent okkur tvær smásögur eftir sig sem við höfðum gaman að.
Við fórum nokkuð snemma af stað í kuldanum. Það var mikið minni gangandi umferð á þessum slóðum. Við gengum þurran, brúnan dalinn og yfir til Thukla pass í hádegismat. Við vorum fegin því að vera með Chhiring til að vísa leiðina. Rétt fyrir tehúsið í Thukla fórum við yfir stóra á og sáum fólk leggja sig í hættu með því að hoppa yfir stór grjót í ánni. Chhiring fór með okkur aðeins ofar og viti menn, þar lá brú beina leið yfir. Okkur leið ekkert sérlega vel í hádegismatnum, bæði með hausverk. Inga ræddi við mann sem var að ganga þessa leið í annað skiptið með konu sinni, nú 20 árum seinna með þremur uppkomnum börnum þeirra. Þau voru líka öll með hausverk en ætluðu samt að halda áfram. Við fengum okkur Dal Bhat og heitt te.
Við gengum áfram og komum upp að minnisvörðum fyrir þá sem hafa fallið frá við að klífa Everest. Það var sorglegt að sjá og tíbetsku bænafánarnir blökktu í vindinum. Við komum loks til Lobuche, sem var minnsta þorpið hingað til, eftir 9.6km göngu upp 683m. Það var mjög kalt um kvöldið og í fyrsta skipti vorum við ekki hrifin af matnum. Við drukkum nóg af sítrónu- og engiferte sem á að vera gott við háfjallaveiki. Við fengum lítið herbergi með tvíbreiðu rúmmi, innst inni á löngum gangi langt frá klósettinu. Við kynntumst nepölskum feðginum sem voru að undirbúa klifur upp fjallið Lobuche sem gnæfir yfir bæinn í 6119m hæð. Þau mæltu með því að hafa pissuflösku inni í herbergi svo við þyrftum ekki að labba að baðherberginu á nóttinni. Við munum klárlega gera það næst. Það var alltaf jafnerfitt þegar Inga þurfti þrisvar sinnum að fara úr hlýja svefnpokanum, í öll hlýju fötin sín og fram í myrkrið til að ganga langan ganginn fram á klósett. Maður virtist þurfa að pissa oftar yfir nótt í svona hæð. Þegar á klósettið var komið var vatnið frosið þannig maður þurfti að brjóta klaka í vatnstunnunni með könnu til að sækja vatn og sturta niður klósettinu. Gólfið í kring var orðið að svelli þar sem vatn hafði skvesst á gólfið og frosið. Lyktin var ekki góð.
26. desember 2022 | Lobuche - Grunnbúðir Everest | 5364M
Við vöknuðum í -20°C og klæddum okkur í nánast öll fötin okkar. Í dag átti að ganga til Gorak Shep þar sem síðasta tehúsið er fyrir grunnbúðir Everest. Við áttum svo að fara upp að grunnbúðunum og aftur niður til Gorak Shep til að gista í 5160m hæð.
Inga vaknaði með dúndrandi hausverk í hnakkanum og hafði enga lyst á hafragrautnum um morguninn. Chhiring var áhyggjufullur og sagði að við gætum prófað að ganga í klukkutíma en ef henni liði ekki betur eftir það, myndum við þurfa að snúa við. Árni var líka með hausverk og mjög þreyttur. Um nóttina hafði hann stundum hætt að anda í nokkrar sekúndur og svo haldið áfram. Inga vakti hann til að láta hann vita. Hann hafði líka fengið í magann kvöldið áður þannig Inga vonaði að lystarleysið hennar hefði komið til vegna kvöldmatar gærdagsins.
Það snjóaði og okkur var ískalt. Inga hugsaði bara um að taka eitt skref í einu en velti því fyrir sér hvort hún ætti að snúa við svona sérstaklega fyrst skyggnið var lélegt. Myndum við sjá Everest í dag fyrir snjókomunni? Við gengum í hálftíma og ekki batnaði Ingu en hún vildi prófa að halda áfram í hálftíma í viðbót. Á leiðinni mættum við tveimur konum sem höfðu lagt af stað með stærri hóp sama morgun en voru sendar aftur niður vegna hausverks.
Hálftíminn leið og ekki batnaði hausverkurinn en lystin var kannski að koma aftur. Inga bað um að fá að halda aðeins áfram. Eftir annan hálftíma var hætt að snjóa og útsýnið var betra en einkenni Ingu voru svipuð. Hún vildi halda áfram og Chhiring stakk upp á því að við færum bara að útsýnispunkti þar sem við gætum séð grunnbúðirnar úr fjarska. Við hugsuðum og töluðum oft um að snúa við en ákváðum að fara bara aðeins lengra.
Þegar á útsýnispunktinn var komið virtist ekki svo langt eftir þannig Inga fór í samningaviðræður við Chhiring. Hún spurði hvort það væri í lagi heilsunnar vegna ef við héldum áfram upp að grunnbúðunum og myndum svo ganga aftur alla leið niður til Lobuche og gista þar svo við myndum þá allavega ekki sofa í hærri hæð. Hann hugsaði sig vel um og ræddi við Sudip. Að lokum féllst hann á þetta plan og sagði að fyrst að Ingu fyndist hún nógu sterk í líkamanum til að ganga gætum við gert þetta. Við sögðum Sudip að fara aftur til baka með farangurinn til Lobuche og slaka á þar svo hann væri ekki að burðast með hann að óþörfu en hann þvertók fyrir það. Hann skyldi fara með okkur alla leið, skilja töskurnar eftir í Gorak Shep og bera dagspokana okkar svo við gætum farið hraðar yfir upp að grunnbúðunum. Chhiring varaði okkur við því að þetta yrði langur dagur og við þyrftum að ganga rösklega á jafnsléttu en hægt upp í móti svo við kæmumst til baka fyrir myrkur. Okkur leist vel á þetta plan og áfram gengum við…eitt skref í einu.
Gengið niður að Gorak Shep
Í Gorak Shep gat Inga loksins borðað núðlusúpu. Við héldum áfram að grunnbúðunum með hausverk en fullan maga. Árni var að örmagnast úr þreytu og sagði við Ingu að hann væri ekki viss um að hann gæti gengið alla leiðina aftur til Lobuche. Inga vissi að annað kæmi ekki til greina því annars gæti háfjallaveikin farið illa með okkur til frambúðar. Hún sagði við Árna að við gætum bara rætt þetta á eftir…
Gengið í átt að grunnbúðum Everest
Loksins, loksins, loksins vorum við komin að grunnbúðum Everest. Við veltum því fyrir okkur hvort við hefðum verið að fórna heilsunni fyrir háann stein. Íslenska þrjóskan er stundum ágæt.
Við sáum leiðina yfir Khumbujökulinn sem Everest-farar þurfa að klöngrast yfir og svo ógnarháan topp Everest.
Grunnbúðir Everest
Við gengum rösklega til baka, endurhlóðum batteríin með tei og Clif Bar í Gorak Shep, skelltum dagspokunum aftur á okkur og héldum áfram sem leið lá niður til Lobuche. Við gengum niður dauðþreytt og veltum því fyrir okkur hvernig í ósköpunum við hefðum náð að ganga alla þessa leið upp á meðan okkur leið svona illa. Leiðin var mikið lengri en við gerðum okkur grein fyrir enda höfðum við bara einblínt á eitt skref í einu.
Sólin var farin að setjast, hún kyssti fjöllin svo þau ljómuðu. Árni lifnaði við, við þetta og gleymdi öllum verkjum og þreytu í fegurðinni. Hann tók upp myndavélina og smellti myndum hægri vinstri. Sólin var sest og myrkrið var að skella á þegar við loksins komum aftur til Lobuche.
Við höfðum gengið í 10 tíma yfir 17.5km með 835m hækkun. Það var ískalt og Inga skalf úr kulda og þreytu. Hún pantaði sér tvo rétti en gat ekkert borðað. Hjartað sló enn hratt og hún hafði enga orku að tala við fólk. Nepölsku feðginin voru steinhissa að sjá okkur aftur - að við hefðum gengið alla þessa leið á einum degi. Við fórum snemma að sofa, spennt að komast lengra niður í meira súrefni á morgun. Þetta var það erfiðasta sem við höfum gert og reyndi vel á þolmörk líkamans.
27. desember 2022 | Lobuche - Tengboche | 3863M
Um morguninn gat Inga loksins borðað almennilega. Við kvöddum Lobuche glöð og skunduðum til baka í gegnum Thukla Pass, Pheriche og að lokum til Tengboche.
Á leiðinni slóst hundur með í hópinn og kom sér fyrir í halarófuna á milli Chhiring og Ingu. Hún fékk nafnið Roxý. Í öðrum bæ bættist hvolpur við í hópinn og við vorum orðin fimm. Chhiring reyndi að fæla þá í burtu en það gekk ekki, þeir voru of hrifnir af þessum nýja leiðtoga sínum og eltu okkur alla leið til Tengboche. Þar tóku aðrir ferðalangar vel á móti þeim með knúsum.
Það var gott að vera komin á kunnuglegar slóðir. Við höfðum gengið í 18.3 km með 370m hækkun. Á tehúsinu kynntumst við nepölskum göngumönnum sem sögðu okkur ýmislegt frá Nepal, m.a. jarðskjálftanum sem reið þar yfir árið 2015 með hrikalegum afleiðingum.
28. desember 2022 | Tengboche - Monjo | 2835M
Tíbetskt brauð í morgunmat og svart te. Chhiring birtist allt í einu með bros á vör og tvo hvíta borða. Hann sagði þá vera blessun frá munkunum í Tengboche um leið og hann lagði þá yfir axlir okkar og óskaði okkur til hamingju með brúðkaupsafmælið! Við horfðum brosandi til hvors annars því við höfðum bæði gleymt því svona nývöknuð uppi í fjöllum. Þriggja ára brúðkaupsafmæli ❤️
Við fundum fyrir auknu súrefni í hverju skrefi á leiðinni niður. Við komum til Monjo seinni part dags eftir 16.3km göngu og 533m hækkun. Okkur stóð til boða heit sturta í ísköldu herbergi en við vorum hvorki með sápu né handklæði en skoluðum okkur samt sem áður upp úr heitu vatninu enda orðin frekar ferleg.
Eftir kvöldmat kom Chhiring með “fjallaköku”, þ.e. eplaköku sem hafði verið bökuð á pönnu í tilefni brúðkaupsafmælisins. Yndislegur maður hann Chhiring og við sögðum honum oft að við hefðum verið heppin að hafa fengið langbesta leiðsögumanninn. Hann hugsaði alltaf svo vel um okkur.
29. desember 2022 | Monjo-lukla | 2880M
Við nutum síðasta göngudagsins. Inga fór að smala hestum upp hlíðarnar þar sem þeir áttu það til að gleyma hvað þeir væru að gera þar sem þeir gengu í halarófu og stoppuðu til að fá sér grasbita eða bara stara á rassinn á næsta hesti. Það sem virkaði var að slá létt í grjónapokana sem þeir báru til þessa að hjálpa þeim að muna að þeir ættu að halda áfram. Við fórum aftur á fyrsta tehúsið okkar að ósk Ingu og fengum Dal Bhat í síðasta sinn í bili. Þá komu skilaboð frá Halla, pabba Árna, þar sem hann spurði af hverju við værum stopp, það virtist vera að við værum inni í einhverju húsi? Þá var hann að fylgjast með okkur í gegnum GPS-sendinguna á gervihnattasímanum okkar í beinni. Það var gott að vita að fjölskyldan var að fylgjast með.
Við komum til Lukla eftir 14km göngu með 648m hækkun. Gangan var búin en ekki ferðalagið. Við sáum á eftir síðustu flugvélinni frá Lukla þann daginn fljúga frá hættulegustu flugbraut í heimi. Við fórum að sofa ofurspennt yfir því að komast í sturtu og hlýtt rúm daginn eftir. Við vorum búin að ganga alls 128km með 6407m hækkun yfir 11 daga.
30. desember 2022 | Lukla-Kathmandu | 1400M
Hvít þoka lá yfir öllu þannig að fluginu um morguninn var seinkað. Við biðum og biðum og fimm tímum seinna var fluginu formlega aflýst. Árna langaði að taka þyrlu niður en Inga vildi bara bíða fram á morgun og sjá hvort það yrði ekki flogið.
Við fréttum að það spáði svona þoku áfram næstu þrjá daga og að á morgun, gamlársdag, kæmust þyrlurnar ekki einu sinni til Lukla vegna þoku. Hjartað sökk. Okkur langaði að komast niður fyrir áramót og við villdum ekki missa af svona mörgum dögum á fína hótelinu sem beið okkar í Kathmandu eftir allt púlið. Við fengum Chhiring til að redda þyrlu en við þurftum að finna þrjá í viðbót til að fljúga með okkur svo við gætum deilt kostnaðinum. Við tókum því á rás um þorpið ásamt öðrum göngumanni sem vildi koma með okkur. Við ræddum við ferðalanga í bænum og reyndum að sannfæra þau um að það væri best að koma með okkur í þyrluna því hinir tveir möguleikarnir voru 1. vera fastur í Lukla í þrjá daga í viðbót eða, 2. sólarhringsganga niður í næsta bæ og svo 14 tíma rútuferð á lélegum veg til Kathmandu. Við fundum að lokum tvo í viðbót og náðum að fylla þyrluna.
Þyrla lendir í Lukla
Á þylurpallinum voru þyrlur að koma og fara. Þyrlurnar stoppuðu ekki spaðana á meðan þær lentu, og fólki og búnaði var komið frá og fyrir borði og bensíni bætt á þyrluna á meðan…
Loks kom þyrlan okkar og við tókum af stað inn í þokuna með hjartað í buxunum. Við vorum fegin að lenda klukkutíma seinna í Kathmandu.
Þyrlan okkar mætt og klukkutíma síðar vorum við lent í Kathmandu
30. desember - 6. janúar 2022 | Kathmandu
Við eyddum restinni af ferðinni í Kathmandu. Á hótelinu borðuðum við góðan mat og fengum alhliða nudd og skrúbb. Við skoðuðum arfleifðarsvæði Kathmandu og restin af dögunum fóru í að sofa út og slaka á. Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir sem lýsa restinni af ferðinni. Við erum mjög þakklát öllum þeim sem hjálpuðu okkur að gera þessa ferð að veruleika.